„Leiðinleg umgengnismál“
Eftirfarandi grein birtist upphaflega í Stundinni 21. október 2019
Í gögnum frá lögreglu er haft eftir barnaverndarstarfsmanni að mál sé „orðið leiðinlegt umgengnismál og að móðir neitaði að afhenda barnið til föður á meðan rannsókn lögreglu stendur yfir“. Í tilteknu máli sem fjallað var um í Stundinni nýverið kemur fram að faðir er grunaður um kynferðisbrot gagnvart barnungri dóttur sinni auk þess sem tvær fullorðnar konur, sem tengjast manninum fjölskylduböndum, hafa lagt fram yfirlýsingu fyrir dómi um að viðkomandi hafi brotið á þeim þegar þær voru börn. Mál sem þetta er ekki einsdæmi.
Hreyfingunni Líf án ofbeldis var hrundið af stað vegna endurtekinna úrskurða og umfjöllunar í fjölmiðlum um umgengnis- og forsjármál þar sem börn eru þvinguð með lagatæknilegum aðferðum í umgengni við gerendur sína, barnaníðinga og ofbeldismenn. Skoðanir eru uppi um hvort baráttan eigi rétt á sér og gagnrýnisraddir heyrast á þeim nótum að „mæður beiti nú líka ofbeldi“ og „tálmun er líka ofbeldi“. Þessi grein er skrifuð til upplýsingar fyrir fólk sem forðast eða finnst flókið að taka afstöðu vegna umræðunnar um þessi mál.
Raunveruleg mál
Eftirfarandi eru þrjú raunveruleg dæmi af börnum í svokölluðum „leiðinlegum umgengnismálum“:
Foreldrar skilja. Faðir var ofbeldisfullur og kynferðislega brenglaður í hjónabandinu. Í skilnaðarferli fara börnin í umgengni við föður. Faðir brýtur kynferðislega á báðum börnum í umgengni. Leikskóli tilkynnir um brot til barnaverndar. Barnageðlæknir mælir ekki með umgengni en stingur upp á því að setja annað barnið á lyf til þess að geta þolað við í umgengninni vegna kvíða. Barnið þróar með sér einkenni áfallastreituröskunar. Faðir þrætir fyrir brotin og segir móður vera að ljúga til að geta tálmað umgengni. Börnin fara í Barnahús og greina frá ofbeldinu, þar sem það er staðfest. Sýslumannsfulltrúi úrskurðar um umgengni án eftirlits og telur niðurstöður Barnahúss hafa „takmarkaða þýðingu“ og að vanlíðan barnanna sé sprottin af „tengslarofi“ við föður. Móðir kærir niðurstöðuna en dómsmálaráðuneytið telur að nauðsynlegt sé að „komast að því hver raunverulegur vilji barnanna sé og hvort það kunni að vera að hann sé litaður af neikvæðum viðhorfum móður í garð föður“. Börnin eru þá yfirheyrð af sýslumanni og þráspurð út í kynferðisofbeldið. Þau finna fyrir mikilli reiði og vantrausti gagnvart yfirvöldum sem áttu að vernda þau.
Foreldrar skilja. Móðir ákveður að tálma umgengni við föður til þess að geta flutt af landi brott og grípur til ýmissa ráða til þess að barnið þurfi ekki að hitta föður sinn. Faðir reyndi í fyrstu að finna leiðir til að geta verið í samskiptum við barnið sitt en ákveður að lokum að láta kyrrt liggja og leyfa barninu að eiga friðsamlegt líf. Barnið flytur erlendis með móður, lifir nokkuð rólegu lífi og vex úr grasi án þess að vera í sambandi við föður sinn. Á fullorðinsaldri hefur barnið sjálft samband við föður. Barnið biður föður að ræða ekkert móður sína, finnst vont að illu orði sé hallað á hana og finnst sárt hvernig hlutunum var háttað á milli foreldranna í uppvextinum. Faðirinn ákveður að virða það þrátt fyrir mikla sorg og reiði í garð móðurinnar því hann telur mikilvægt að rækta góð tengsl við barn sitt. Að öðru leyti glímir barnið ekki við einkenni vanlíðanar og gengur vel í starfi og einkalífi.
Börnin sem í dag eru á aldrinum 12, 13 og 15 ára, hafa sent Alþingi umsögn vegna frumvarps sjálfstæðismanna um refsingar við tálmun þar sem þær segja að refsing við tálmun bitni verst á börnum
SJÁ EINNIG:
Dætur Hjördísar Svan: „Af hverju var okkur ekki trúað eða tekið mark á gögnum um ofbeldi?“
Foreldrar slíta samvistum. Móðir neitar að virða forsjárrétt föður meðal annars vegna áverka sem hann veitti barni sínu í síðustu samveru. Maðurinn er með erlendan ríkisborgararétt. Börnin voru því sótt af fimm einkennisklæddum lögreglumönnum, lögreglustjóra í hátíðarbúningi og víkingasveit eftir tilmælum íslenskra stjórnvalda, á grunni gamallar aðfararbeiðni og flutt með valdi til föður. Íslensk barnaverndaryfirvöld voru með gögn í höndum um ofbeldið en gripu ekki til neinna ráðstafana í samræmi við það heldur sendu börnin með bréf til erlendra yfirvalda um að þyrfti að skoða ofbeldið þar ytra sem var aldrei gert. Móðirin fór með börnin heim til Íslands ári síðar en var handtekin árið þar á eftir og afplánaði 18 mánaða dóm fyrir að hafa sótt börnin. Börnin sem í dag eru á aldrinum 12, 13 og 15 ára, hafa sent Alþingi umsögn vegna frumvarps sjálfstæðismanna um refsingar við tálmun þar sem þær segja að refsing við tálmun bitni verst á börnum og að mamma þeirra hafi gert allt til þess að forða þeim frá ofbeldi.
Í hvaða dæmi trúið þið að barn hafi orðið fyrir minnstum skaða?
Yfirþyrmandi fjöldi mála
SJÁ EINNIG:
Börn þvinguð til umgengni við ofbeldismenn – kerfisbundið horft framhjá gögnum um kynferðisbrot
Raunin er að í þeim málum þar sem móðir lýsir áhyggjum sínum af ofbeldi föður og leggur fram gögn sem renna eindregið stoðum undir frásögn af ofbeldi, er líklegra að trúverðugleiki hennar sé dreginn í efa heldur en að saga föður um ofbeldi hafi vægi í umgengnismálinu. Fjöldi og alvarleiki slíkra mála sem forsvarskonur Lífs án ofbeldis hafa vitneskju um er yfirþyrmandi. Erlend rannsókn sýndi einnig að mæðrum sem greina frá kynferðisofbeldi feðra á börnum þeirra er einungis trúað í 2% tilvika ef faðirinn ásakar móðurina um að innræta barninu neikvætt viðhorf til hans. Fulltrúar réttarkerfisins virðast telja það líklegra að börnin séu heilaþvegin heldur en að móðir vilji vernda barn sitt. Sýslumaður gerir í reynd ekki greinarmun á málum þar sem barn einfaldlega nýtur ekki réttar síns til umgengni við foreldri og þeim málum þar sem faðir hefur beitt börn og/eða heimilisfólk ofbeldi.
Alþjóðasamfélagið lítur á ofbeldi gegn konum og stúlkum sem heimsfaraldur
SJÁ EINNIG:
Helmingur kvennanna óttaðist um líf sitt
Einhverjir telja undirskriftaherferðina ekki eiga rétt á sér því vissulega sé tálmun að ástæðulausu hræðileg og að mæður beiti líka ofbeldi. Alþjóðasamfélagið lítur á ofbeldi gegn konum og stúlkum sem heimsfaraldur. Kynbundið ofbeldi er vel þekktur raunveruleiki á Íslandi. Áttatíu og sjö prósent þeirra sem leituðu í Stígamót í fyrra voru konur og um 70% þeirra sem leituðu þangað voru beitt kynferðisofbeldi fyrir 18 ára aldur. Gerendur voru í 96% tilvika karlmenn. Rúmlega 17% gerenda í sifjaspelli voru feður eða stjúpfeður og 1,6% mæður eða stjúpmæður.
Aðeins toppurinn á ísjakanum
Árið 2018 komu 135 konur og 70 börn í Kvennaathvarfið, auk þess sem 240 konur nýttu sér viðtöl, án þess að dvelja þar. Í Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis komu 225 konur í viðtöl þetta sama ár. Samkvæmt konum sem leituðu til Kvennaathvarfs bjuggu 273 börn þeirra á ofbeldisheimilum. Hvað segir þessi fyrirliggjandi tölfræði okkur um kynjahlutföll í kynferðis- og heimilisofbeldismálum? Er einhver sérstök ástæða til að ætla að þessi tölfræði eigi ekki alveg eins við í umgengnis- og forsjármálum?
Kynbundið ofbeldi í nánum samböndum er mjög raunverulegt á Íslandi í dag og það er hagur okkar allra að við horfumst í augu við það.
Í nýlegu svari frá dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns, um skráningu á heimilisofbeldi hjá lögregluembættum kemur meðal annars fram að af þeim konum sem myrtar voru á árunum 1999-2018 var helmingur þeirra drepinn af maka eða fyrrverandi maka. Í 9% tilvika þar sem karlar voru drepnir var gerandinn maki eða fyrrum maki. Sjö konur voru myrtar af maka eða fyrrverandi maka á árunum 1999-2018 en tveir karlar. Nýjar tölur á Íslandi eiga sér mikla samsvörun við þann hræðilega raunveruleika sem birtist í alþjóðarannsóknum árið 2017 en meira en helmingur allra þeirra kvenna sem myrtar voru á heimsvísu (58%) voru drepnar af maka, aðila í nánu sambandi eða fjölskyldumeðlim. Um það bil 82% þeirra sem myrtir eru í nánu sambandi eru konur. Kynbundið ofbeldi í nánum samböndum er mjög raunverulegt á Íslandi í dag og það er hagur okkar allra að við horfumst í augu við það.
Fjöldi þeirra mála sem hefur ratað í fjölmiðla er aðeins toppurinn á ísjakanum. Við þurfum að læra af þessum málum og þeim skaða sem þegar er orðinn. Ef samfélagið ætlar að skipta sér af réttindum barna yfir höfuð, ber því skylda til að gera það vel. Þegar ætlunin er að vernda hag barna, en kerfið brýtur í staðinn á mannréttindum þeirra, er tilgangurinn farinn að snúast upp í andhverfu sína. Að þvinga börn í ofbeldishættu er mannréttindabrot og ekki í samræmi við tilgang og anda íslenskra barna- og barnaverndarlaga. Við hvetjum fólk til að kynna sér málefnið og kröfurnar til stjórnvalda inni á Facebook síðu Lífs án ofbeldis og skrifa undir undirskriftarlistann.